08. desember. 2012 12:12
Lið Snæfellsbæjar atti í kvöld kappi við ríkjandi Íslandsmeistara í Útsvari í spurningakeppni sjónvarpsins. Keppnin var jafnframt sú mest spennandi í Útsvari frá upphafi. Eftir fyrsta og annan leikhluta var jafnt með liðunum. Þurfti fyrst Sigmar og síðan Brynja að kasta upp peningi til að skera úr um hvort lið ætti að hefja næsta leikhluta. Sem dæmi þá svöruðu bæði lið leikþrautinni með fullu húsa stiga þegar svara átti þemanu "verkfærum." Sama hvort það var þvinga, sporjárn, meitill eða borvél, liðin spiluðu svörin af fingrum fram enda veraldarvant fólk á ferð. Þegar úrslit lágu loks fyrir var lið Snæfellsbæjar með 92 stig gegn 91 stigi Grindvíkinga. Jafnara gat það ekki orðið. Símavinir reyndust vel í kvöld sem stundum fyrr í þessari keppni. Að þessu sinni var Kristinn Jónasson bæjarstjóri símavinur síns fólks að vestan. Þrátt fyrir að í kynningu hafi Kristni bæði verið líkt við einræðisherrana Castró og Gaddafi, þá lét hann það ekki slá sig út af laginu og bjargaði hreinlega liði sínu með snilldar Googli, jafnvel þótt hermt sé að netsamband hafi legið niður á Snæfellsnesi í allt kvöld. Keppendum Snæfellsbæjar er óskað til hamingju með frábæran árangur í kvöld. Vonandi verður þeim til góðs að hafa fengið að verðlaunum fræðsluferð um fiskverkun í Grindavík. Rausnarlegt boð hjá Stakkavík og félögum.