10. desember. 2012 06:15
Á aðalfundi í hestamannafélaginu Faxa í Borgarfirði, sem haldinn var 4. desember sl., var íþróttamaður Faxa kjörinn. Að þessu sinni var það hinn ungi og efnilegi knapi Konráð Axel Gylfason á Sturlu Reykjum í Reykholtsdal sem varð fyrir valinu. Þetta er í annað skipti sem Konráð hlýtur þennan titil þrátt fyrir ungan aldur. Konráð er vel að sigrinum kominn, gekk vel árið 2012, varð m.a. Reykjavíkurmeistari í gæðingaskeiði unglinga og annar í fimmgangi á sama móti ásamt því að verða Íslandsmeistari í slaktaumatölti og þriðji í gæðingaskeiði á Íslandsmóti barna og unglinga í sumar. Auk þess hlaut hann fjölda annarra vinninga á smærri mótum.