10. desember. 2012 10:01
Bæjarstjórn Snæfellsbæjar átti fund með forsvarsmönnum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í síðustu viku þar sem farið var yfir málefni heilsugæslustöðvarinnar í Snæfellsbæ. Á fundinum óskaði bæjarstjórnin eftir því að ákvörðun um sparnað í læknamálum og heilbrigðisþjónustu verði endurskoðuð, en enginn læknir er á vakt í Snæfellsbæ aðra hverja helgi og í Grundarfirði helgina á móti. Á fundinum var forsvarsmönnum HVE einnig afhentur undirskriftalisti íbúa Snæfellsbæjar þar sem læknaskortinum um helgar var mótmælt. Haldinn var fundur á Átthagastofu í Ólafsvík þriðjudaginn 27. nóvember þar sem söfnun undirskriftalistans var sett af stað. Alls söfnuðust 380 undirskriftir eftir að listarnir höfðu verið settur upp í verslunum í sveitarfélaginu.
Laufey Helga Árnadóttir stóð fyrir undirskriftarlistanum. „Mér finnst að nóg sé búið að skera niður í heilsugæslustöðinni. Ég sá það á hve.is, heimasíðu Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, að heilsugæslustöðin í Ólafsvík sé H2 stöð og að gert sé ráð fyrir tveimur starfandi læknum. Það hafa ekki verið tveir læknar í Ólafsvík í mörg ár. Það er búið að fara offari í niðurskurði hérna. Myndi fólk á Akranesi sætta sig við að fara í Borgarnes aðra hvora helgi til að sækja læknaþjónustu? Eða öfugt? Hver er munurinn,“ spyr Laufey.