10. desember. 2012 01:54
Bændur á Snæfellsnesi í eftirleitum gengu fram á fimm ára gamlan haförn á Litla-Langadal á Skógarströnd um hádegisbilið í gær. Að sögn Guðmundar Margeirs Skúlasonar í Hallkelsstaðahlíð, eins leitarmanna, fundu þeir örninn á þúfu í dalnum. „Þar dröslaðist hann eitthvað um blessaður og virtist hálf veiklulegur. Hann var þó ekki vængbrotinn en var grútarblautur,“ sagði Guðmundur. Leitarmenn komu erninum til aðstoðar og tóku hann með sér til byggða. „Hann var sallarólegur eftir að hafa hvæst aðeins fyrst, enda kannski eðlilega smeykur,“ bætti Guðmundur við. Gísli Þórðarson í Mýrdal tók örninn með sér til byggða og kom honum í hendur Kristins Hauks Skarphéðinssonar dýravistfræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
Í samtali við Skessuhorn sagði Kristinn Haukur að örninn væri við þokkalega heilsu. Grútur í fiðri hamlaði hins vegar flughæfni hans og því þurfi að þrífa hann vel, en Gísli var einmitt á leið með örninn í hreinsun í Húsdýragarðinn í Reykjavík þegar Skessuhorn ræddi við hann fyrr í dag. Að þrifum loknum verður erninum sleppt aftur til heimkynna sinna sem eru á norðanverðu Snæfellsnesi.