11. desember. 2012 04:59
Auðhumla svf., móðurfélag Mjólkursamsölunnar, lýsir eindreginni vanþóknun á þeim aðbúnaði nautgripa og framleiðsluaðstöðu, sem upplýst hefur verið um á tveimur kúabúum sem svipt voru framleiðsluleyfi í vikunni og mikið hefur verið rætt um í fréttum. „Félagið telur mikilvægt að grípa hratt og örugglega í taumana þegar mál af þessu tagi koma upp. Auðhumla bendir á að gæði allrar mjólkur sem félagið kaupir eru tryggð með mælingum tvisvar til þrisvar í viku og eftirliti með innihaldsefnum. Þessar mælingar eru algerlega sambærilegar við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Í viðskiptaskilmálum Auðhumlu um mjólkurkaup er kveðið á um að bændur þurfi að standast ákvæði reglugerðar um aðbúnað nautgripa til að fá að vera í viðskiptum hjá félaginu. Eftirlit með því að reglugerðum sé fylgt er formlega á höndum Matvælastofnunar,“ segir í tilkynningu frá Auðhumlu.
Þá segir að forráðamenn Auðhumlu og Mjólkursamsölunnar hafi í dag átt fund með yfirmönnum Matvælastofnunar um það með hvaða hætti hægt væri að koma í veg fyrir að mál þróuðust með þeim hætti sem gerðist á þeim tveimur búum sem hlut eiga að máli. „Í því skyni var ákveðið að treysta upplýsingamiðlun milli gæðaeftirlits Mjólkursamsölunnar og eftirlitsaðila Matvælastofnunar að því marki sem lög og reglur heimila. Markmiðið er að upplýsingar um frávik berist hratt og örugglega milli þessara aðila og hægt sé að grípa í taumana án tafar. Auðhumla hyggst einnig setja í viðskiptaskilmála framleiðenda strangari ákvæði um stöðvun viðskipta þar sem alvarlegar athugasemdir hafa verið gerðar við starfsemi framleiðenda.“
Loks segir í tilkynningu frá Auðhumlu að um 700 kúabændur séu nú í landinu. „Dæmi af því tagi sem verið hafa til umræðu eru undantekning. Þau eru hins vegar áminning um að mikilvægt er að rýna stöðugt gæðaferla í framleiðslunni til að tryggja að við höfum hér eftir sem hingað til besta mögulegt hráefni framleitt við bestu mögulegu kringumstæður.“