12. desember. 2012 10:56
Í nýlegum dómi Héraðsdóms Vesturlands eru þrír ungir menn búsettir á Akranesi dæmir til fangelsisvistar fyrir húsbrot og sérstaklega hættulega líkamsárás á ungu pari í maímánuði í vor. Allir gengust mennirnir skýlaust við brotum sínum en vegna fyrri brota og dóma var þeim dæmdur þyngingarauki í refsingu. Tveir mannanna voru nú dæmir í 12 mánaða fangelsi og sá þriðji í átta mánaða fangelsi. Þremenningarnir fóru í hús á Presthúsabraut á Akranesi í vor þar sem þeir ruddust heimildarlaust inn á heimilið og réðust þar á ungan mann. Slógu hann ítrekað í höfuðið og líkama með járnbareflum, stöngum sem voru frá rúmu hálfu kílói upp í tæpt kíló að þyngd. Þetta gerðu þeir fyrst inni í húsinu og síðan fyrir utan, þar sem þeir spörkuðu honum niður tröppur. Fórnarlambið hlaut af árásinni skerta meðvitund, einkenni heilahristings þ.m.t. uppköst og höfuðverk, þrjá skurði á höfuð sem sauma þurfti saman og fleiri áverka.
Árásamenningarnir létu reiði sína einnig bitna á sambýliskonu fórnarlambsins með því að slá í hana járnstöngunum. Hlaut hún við það roða og bólgubletti á báða framhandleggi og fleiri áverka. Auk fangelsisvistar voru þremenningarnir dæmdir til að greiða karlmanninum 650 þúsund í skaða- og miskabætur og ungu konunni 300 þúsund í skaða- og miskabætur, auk málskostnaðar. Þá voru umræddar járnstangir gerðar upptækar. Bótagreiðslur sem þremenningarnir voru dæmdir til eru tæplega helmingur þeirra bóta sem parið gerði kröfu um.