13. desember. 2012 07:01
Fjölmargir íbúar í Dalabyggð hafa sent Símanum áskorun þar sem kvartað er yfir að þeir njóti ekki sömu fríðinda og kjara og aðrir landsmenn hvað varðar aðgengi að sjónvarpsrásum í gegnum Internetið. Þá sé hraði í notkun á Internetinu ekki sá sem íbúar greiða fyrir í áskriftum sínum. Í áskoruninni er óskað eftir að Síminn uppfæri ADSL búnað í símstöðinni í Búðardal sem mun vera kominn vel til ára sinna. Byggðarráð Dalabyggðar tekur undir óskir íbúanna og krefst þess að búnaðurinn í símstöðinni verði uppfærður. Sveitarfélagið Dalabyggð hafi verið að kaupa aukna netþjónustu af Símanum en komið hafi upp hnökrar sem ekki finnist viðhlítandi skýringar á. „Þetta vekur upp spurningar um úreltan búnað sem ekki hefur verið svarað. Ólíðandi er að íbúum og fyrirtækjum í Dalabyggð sé gert að greiða sömu þjónustugjöld og þeim sem eðlilegrar þjónustu njóta,“ segir í bókun frá fundi byggðarráðs Dalabyggðar í síðustu viku.