13. desember. 2012 11:09
Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar fyrir næsta ár og þriggja ára áætlun voru teknar fyrir og samþykktar eftir aðra umræðu á fundi sveitarstjórnar sl. þriðjudag. Gert er ráð fyrir að sveitarsjóður muni skila 53,8 milljónum í rekstarafgang á næsta ári og að handbært fé frá rekstri verði 35,9 milljónir á næsta ári, 139,8 milljónir árið 2014, 196 milljónir 2015 og 265,2 milljónir 2016. Tekjur Hvalfjarðarsveitar eru áætlaðar 652 milljónir á næsta ári. Stærstur hluti þeirra, eða 48,6% er vegna fasteignagjalda, 35,1% vegna útsvarstekna, 0,5% jöfnunarsjóðsframlag og 15,9% aðrar tekjur.
Laun og launatengd gjöld er langstærsti útgjaldaliður aðalsjóðs á næsta ári, 272 milljónir króna. Stærsti framkvæmdaliðurinn á næsta ári er vegna ljósleiðaravæðingar í Hvalfjarðarsveit og er áætlað að 130 milljónir fari til verkefnisins. Heildaráætlun fyrir ljósleiðaravæðingu er 285 milljónir króna og fyrirhugað að ljúka framkvæmdum árið 2014. Í vatnsöflun og uppbyggingu Vatnsveitu Hvalfjarðarsveitar verður varið 30 milljónum á næsta ári og 5,5 milljónum árlega 2014-2016. Á árinu 2013 er gert ráð fyrir hitaveituvæðingu á köldum svæðum í sveitarfélaginu, áætlunin gerir ráð fyrir 15 milljónum króna til verkefnisins. Langstærsta viðhaldsframkvæmdin á næsta ári verður við leikskólann Skýjaborg, en fyrirhugað er að fara í framkvæmdir á lóð skólans fyrir 17 milljónir króna. Í einstaka málaflokka úr sveitarsjóði á næsta ár fer langmest til fræðslu- og uppeldismála eða um helmingur þeirra peninga sem deilt er út, 338 milljónir króna. Álagningarhlutfall útsvars og fasteignaskatts verður óbreytt á næsta ári. Gjöld vegna sorphirðu og urðun vegna íbúðarhúsnæðis og sumarbústaða hækkar lítillega.