20. desember. 2012 09:35
Þegar stoppað er fyrir utan lágreist hús við Vesturgötu á Akranesi að morgni dags er ekki ólíklegt að sjá megi foreldra skjótast inn með gullmolana sína sem þar ætla að dvelja yfir daginn. Í húsinu býr Guðlaug Aðalsteinsdóttir, dagmamma sem fóstrað hefur 362 börn á þeim ríflega 33 árum sem hún hefur starfað. Þessi lávaxna, hlýja kona sem börnin kalla Gullu mömmu hefur gefið hverju barni sem hún hefur passað, númer sem þau halda alla tíð, jafnvel þótt þau hætti og komi síðan aftur. Það var 1. ágúst 1979 sem Gulla mamma hóf að passa börn og eingöngu vegna þess að yngsta soninn sem þá var ellefu mánaða, vantaði félagsskap. Eldri bræður hans voru þá 6 og 7 ára gamlir svo hann vantaði einhvern til að leika sér við. Á sama tíma skúraði hún einnig á kvöldin, en hætti því svo.
Brá búi og flutti suður
Guðlaug Aðalsteinsdóttir er ekki fædd og uppalin á þessu landshorni. Sem barn sleit hún skónum austur í Borgarfirði og alveg fram til þess að hún var 21 árs. Hún segir kíminn að þá hafi hún brugðið búi og flutt suður. „Ég átti orðið 25 kindur og einn hrút,“ segir hún brosandi og heldur áfram. „Það var hálfsystir mín sem fyrst varð þess valdandi að ég fór suður. Svo fór ég heim en síðan aftur suður. Giftist eiginmanninum árið 1971 sem ekki hefur farið mjög illa á því að hafa öll þessi börn,“ og Gulla mamma hlær dátt og segir jafnframt að ætíð hafi verið regla að spyrja hennar eigin börn hvort þau væru samþykk þessari starfsemi. „Á hverju hausti var þetta rætt hér heima, eigum við að halda áfram eða hætta. Allir voru alltaf tilbúnir til þess að hafa framhald á. Aðeins í eitt sinn man ég eftir að elsti sonur minn sagði um afar erfitt barn sem hér var. „Mamma, ég held að hann sé leiðinlegur.“ En dýpra var ekki tekið í árinni. Viðkomandi átti erfitt, það var alveg rétt. Það sést nefnilega á börnunum ef ekki er pláss fyrir þau í lífi foreldranna,“ og Gulla mamma er alvarleg á svip þegar hún mælir þessi orð.
Sjá nánar viðtal við Guðlaugu Aðalsteinsdóttur dagmömmu á Akranesi í Jólablaði Skessuhorns sem kom út í gær.