21. desember. 2012 08:01
Hún er fædd á Hjarðarhóli á Jökuldal 2. janúar 1921 þar sem foreldrar hennar voru í húsmennsku á þeim tíma. Flutti með þeim á Borgarfjörð eystri áður en hún kláraði fyrsta árið sitt. Systkinahópurinn var stór og síðan hefur henni ætíð líkað vel að hafa stóran hóp af börnum í kringum sig. Frá Borgarfirði liggur leiðin suður, alveg vestur á Mýrar þar sem búið var í árafjöld. Nú býr Árný Ingibjörg Jóhannsdóttir, Inga á Ökrum, í Ánahlíð í Borgarnesi þar sem knúið er dyra. Boðið er í bæinn og tekið til við spjall. Lífið á Borgarfirði eystri var blanda af sjósókn og skepnuhaldi. Umhverfið er ægifagurt sem engan lætur ósnortin er þangað hefur komið, allavega ekki að sumarlagi.
„Pabbi var þó ekki útvegsbóndi, frekar háseti en stundaði sjó á sumrin. Við vorum því alin upp við störf til sjós og lands. Ég fór hins vegar fremur snemma að heiman. Afkoman var þannig. Við systkinin mörg svo það þurfti að reyna fyrir sér annarsstaðar,“ segir Inga á Ökrum í upphafi spjallsins. Hún er örvhent og segir að sér leiðist að prjóna og afköstin séu lítil því hún hafi aldrei lært prjónaskap almennilega. „Það var nefnilega þannig á mínum yngri árum þegar ég fór í skólann þá var bara sagt að ég væri örvhent og gæti ekki gert neitt. Meðan Helga systir fékk að sauma út og prjóna þurfti ég að sitja og læra að skrifa með hægri hendi sem mér fannst alltaf undarlegt og gríðarlega erfitt. Afi hafði kennt mér að skrifa heima og fann aldrei að, en það eimdi lengi eftir af þessu hjá mér.“ Blaðamaður getur ekki stillt sig um að spyrja hvort hún hafi signt sig skrattanum með því að nota vinstri höndina til þessa verks. Inga segist aldrei hafa heyrt þetta fyrr. „En kristnin hefur löngum gert skrattanum hátt undir höfði. Það er nokkuð merkilegt að telja sig kristinn og vera annað hvort fylgjandi guði eða djöflinum,“ segir hún með kímnisglampa í augum. „Það trúa reyndar allir á eitthvað og ef maður verður fyrir áfalli er gott að hafa hálmstráin til að halda í.“
Sjá nánar í Jólablaði Skessuhorns sem nú er komið út.