20. desember. 2012 03:01
Erla Þórðardóttir er frá Goddastöðum í Dölum þar sem hún fæddist og ólst upp. Nú býr hún á Akranesi. Erla er mikið fyrir handavinnu og föndrar í frístundum sínum. Hún málar, saumar, gerir útsaum og ýmislegt fleira. Flest af þessu lærði hún á unga aldri í barnaskóla á Laugum og seinna í Húsmæðraskólanum á Staðarfelli. Blaðamaður Skessuhorns sótti Erlu heim og ræddi við hana um veruna í húsmæðraskólanum. „Frá átta ára aldri til fimmtánda árs var ég í Laugaskóla í Hvammsveit í Dölum. Um haustið 1970 fór ég í Húsmæðraskólann á Staðarfelli og þar lærðum við stelpurnar ýmislegt. Við fórum í rauninni að heiman og það var auðvelt að ímynda sér að maður væri farinn að búa og við lærðum snemma að treysta sjálfum okkur og að standa á eigin fótum. Það var rosaleg breyting að fara svona ung að heiman. Ég segi það fyrir mig að ég varð opnari fyrir vikið og eignaðist mikið af góðum vinum í skólanum,“ segir Erla.
Gekk á ýmsu
Í húsmæðraskólanum fór mikill tími í alls kyns húshaldstengdan lærdóm. „Það fyrsta sem við byrjuðum á að læra um haustið var sláturgerð, svo lærðum við vefnað, útsaum, að sauma með höndunum og í saumavél eftir sniðum upp úr blöðum. Við lærðum að baka og þjóna í eldhúsinu þegar veislur voru haldnar. Svo var okkur kennt sérstaklega að starfa í þvottahúsinu, svo sem að flokka þvottinn. Skítugi þvotturinn okkar var allur settur í haug á gólfið og mig minnir að við höfum verið fjórar í einu sem áttum að þvo af öllum hinum. Það fyrsta sem við þurftum að gera var að flokka hvað mætti þvo saman. Við þurftum bara að læra á miðana á fötunum og að þvo í höndunum það sem ekki mátti þvo í vél,“ segir Erla.
Sjá nánar í Jólablaði Skessuhorns sem nú er komið út.