30. desember. 2012 12:27
Rafmagn er framleitt með varavélum fyrir Ólafsvík, Hellissand og Rif í Snæfellsbæ og biður Rarik notendur vinsamlegast að fara sparlega með rafmagn af þeim sökum. Klukkan 03:44 í nótt tókst að koma rafmagni frá Bláfeldi að Húsanesi í Breiðuvík, en veðurhæð var mjög mikil í nótt og því eiginlega ekkert veður til vinnu. Staðarsveitarlína er enn biluð við Litla Kamb og verður gert við línuna um leið og vind lægir nægilega mikið til þess að hægt sé að athafna sig. Raforkunotendur í Saurbæ og Fellsströnd í Dölum eru enn án rafmagns, en verið er að flytja efni til viðgerða. Ekki verður hægt að skoða ástand dreifilína fyrr en að lægir og birtir, en vitað er um a.m.k. sjö brotna staura á Saurbæjar- og Fellsstrandarlínu.