01. mars. 2013 10:21
Skallagrímsmenn héldu suður í Garðabæ í gærkvöldi þar sem þeir kepptu við lið Stjörnunnar í Dominos deild karla í körfubolta. Garðbæingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og hreinlega völtuðu yfir Borgnesinga sem virtust andlega fjarverandi allan fyrsta leikhlutann. Staðan að loknum honum var 33:11 fyrir Stjörnuna. Borgnesingar mættu hins vegar staðráðnir í að gera betur í öðrum leikhluta og var allt annar bragur yfir leik liðsins. Með góðri baráttu í sókn og vörn náðu þeir að minnka muninn áður en flautað var til hálfleiks í fimmtán stig, 53:38. Gestirnir héldu uppteknum hætti í þriðja leikhluta og náðu muninum niður í níu stig um tíma. Stjörnumenn bitu þó frá sér og höfðu yfir í lok leikhlutans 80:66. Skallagrímsmenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna leikinn í fjórða leikhluta en sterk vörn heimamanna hélt þeim í skefjum. Forskot Garðbæinga náðu Borgnesingar þó að saxa lítillega í lokin og urðu lokatölur 101:92.
Óhætt er að fullyrða að frammistaða Skallagrímsmanna í fyrsta leikhluta hafi ráðið úrslitum í leiknum. Borgnesingum til hróss þá gáfust þeir ekki upp þrátt fyrir slaka byrjun og náðu að vinna sig inn í leikinn aftur með seiglu sinni þó á brattann hafi verið að sækja. Stighæstur þeirra í leiknum var Carlos Medlock sem skoraði 29 stig. Páll Axel Vilbergsson kom næstur með 18 stig og þá skoraði Hörður Hreiðarsson 12 stig. Sigmar Egilsson og Orri Jónsson skoruðu 9 stig hvor, Trausti Eiríksson og Davíð Ásgeirsson voru báðir með 5, Davíð Guðmundsson skoraði 3 og Birgir Þór Sverrisson 2.
Skallagrímsmenn verma áttunda sæti Dominos deildarinnar með 14 stig eftir leikinn. Næsti leikur liðsins er á fimmtudagur í Borgarnesi þegar lið Snæfells kemur í heimsókn og boðið verður upp á skemmtilegan Vesturlandsslag.