15. mars. 2013 01:20
Lið ÍA í 1. deild karla í körfubolta tekur á móti liði Augnabliks úr Kópavogi í Íþróttamiðstöðinni á Jaðarsbökkum í kvöld. Liðin áttust við síðast í desember þar sem Skagamenn unnu 71:92. ÍA er fyrir leik kvöldsins í tíunda og neðsta sæti 1. deildar með fjögur stig en liðið er þó jafnt Augnablik og Reyni Sandgerði að stigum sem eru í níunda og áttunda sæti. Níunda og tíunda sæti eru fallsæti og því er leikur kvöldsins afar mikilvægur fyrir Skagamenn. Síðasti leikur ÍA er loks gegn Reyni Sandgerði föstudaginn 22. mars í Sandgerði. Sigri Skagamenn þessa tvo leiki er sæti þeirra í 1. deild að ári tryggt. Leikur kvöldsins hefst kl. 19:15 og er ástæða til að hvetja Akurnesinga til að mæta á pallana á Jaðarsbökkum og hvetja sína menn til dáða.