21. mars. 2013 11:01
Í síðustu viku útnefndi hópferðafyrirtækið Strætó bs. Gísla Jónsson bílstjóra á leið 57 bílstjóra febrúar mánaðar. Gísli er Borgfirðingur í húð og hár, á uppruna sinn og rætur í Andakílnum, er nánar til tekið frá bænum Innri-Skeljabrekku en hann er sonur hjónanna Jóns Gíslasonar og Kristínar Pétursdóttur. Vagnar á leið 57 ganga á milli Mjóddar í Reykjavík og Akureyrar dag hvern og koma við á fjölmörgum stöðum á leiðinni, svo sem á Akranesi, Borgarnesi, Blönduósi og Sauðárkróki. Gísli hefur jafnan akstur á því að taka við vagni á stoppistöðinni í Borgarnesi og fer þá ýmist suður eða norður allt eftir hvernig skipulagi hvers dags er háttað. Í umsögn Strætó, sem byggð er á ábendingum farþega, er Gísli sagður kurteis og greiðvikinn í framkomu, aksturslag hans öruggt og þjónustulund til fyrirmyndar. Blaðamaður Skessuhorns setti sig í samband við þennan geðþekka bílstjóra af þessu tilefni og ræddi við hann um starf sitt og bakgrunn. Kom í ljós að þar fer maður með mikla þekkingu á akstri og stjórnun véla og nær reynsla hans á þeim vettvangi allt aftur til uppvaxtaráranna í Andakílnum.
Rætt er við strætóbílstjórann Gísla Jónsson frá Innri-Skeljabrekku í Andakíl í Skessuhorni vikunnar.