21. mars. 2013 11:10
Snæfellskonur tryggðu sér annað sætið í Dominosdeildinni í körfubolta í gærkveldi þegar þær sigruðu Njarðvík 80:69 í Hólminum. Gestirnir höfðu yfirhöndina lengst af leik, höfðu fimm stiga forystu eftir fyrsta leikhluta og voru þremur stigum yfir í hálfleik 41:38. Jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta, en það var síðan í lokafjórðungnum sem Snæfellskonur náðu að rífa af sér pressuna og sigruðu í þeim leikhluta 27:13. Hjá Snæfelli var Kieraah Marlow atkvæðamest með 22 stig og 8 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir kom næst með 17 stig og 7 fráköst, þá Helga Hjördís Björgvinsdóttir 16 stig og 11 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir skoraði 11 stig, Hildur Sigurðardóttir 7 og tók 7 fráköst og Rósa Kristín Indriðadóttir 7 og tók 6 fráköst.
Með sigrinum er Snæfell komið í 40 stig, tveimur stigum minna en deildarmeistarar Keflavíkur, sem eiga leik til góða. KR er í þriðja sætinu með 36 stig og Valur í því fjórða með 30. Ljóst er að Snæfell mætir KR í úrslitakeppninni og Keflavík Val. Snæfellskonur eiga einn leik eftir í deildarkeppninni, einmitt gegn KR í Frostaskjóli nk. miðvikudagskvöld. Kannski mun sá leikur verða forsmekkurinn af viðureignum liðanna í úrslitakeppninni.