15. janúar. 2003 10:18
Fjarnám í búfræði nýtur vaxandi vinsælda
Í upphafi vikunnar dvöldust fjarnemar í búfræðideild Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri í skólanum sjálfum en eins og felst í orðinu fjarnemi stunda nemendurnir námið að mestu utan skólastofunnar. Í upphafi hverrar annar koma fjarnemarnir hinsvegar að Hvanneyri og einu sinni á önn þess utan til að stunda verklega hluta námsins.
Að sögn Eddu Þorvaldsdóttur, umsjónarmanns fjarnámsins á Hvanneyri, eru flestir fjarnemarnir starfandi bændur sem stunda námið með sínum búrekstri. Þegar fjarnámið fór af stað fyrir fimm árum voru nemendurnir aðeins fimm en eru um fjörtíu í ár. Hefðbundið búfræðinám tekur um tvö ár en Edda segir að sér virðist sem meðalnámstíminn í fjarnámi verði fimm ár. „Flestir nemarnir eru í fullri vinnu við sín bú og sumir jafnvel í fjarnámi annarsstaðar þannig að það er mikið álag á þessu fólki og því neyðist það til að dreifa náminu á lengri tíma.“
Edda segir að sú reynsla sem komin er á fjarnámið sé góð og að sér virðist sem það sé komið til að vera. „Með þessu móti gefst starfandi bændum tækifæri til að bæta við sig þekkingu en fæstir þeirra eru í þeirri aðstöðu að þeir geti farið í burtu í skóla í lengri eða skemmri tíma. Ég hef trú á að aukin menntun geti komið í veg fyrir að bændur leggi upp laupana og ef vel ætti að vera þá þyrftu allir starfandi bændur að hafa einhverja tilskylda menntun. Landbúnaður er stærsta framleiðsla á matvælum á heimsvísu en í þessu fagi starfar fjöldi fólks með enga menntun,“ segir Edda.