08. ágúst. 2003 08:15
Heimasmíðaður bátur sjósettur á Hellnum
Ketill Sigurjónsson, húsasmiður og orgelsmiður með meiru , sjósetti á frídegi verslunarmanna árabát sem hann hefur verið að dunda sér við að smíða undanfarna mánuði. Báturinn er smíðaður úr stálplötum utan á timburgrind og þófturnar eru einnig úr timbri. Ketill býr á Hellnum, beint fyrir ofan höfnina og því var stutt fyrir hann að flytja bátinn úr verkstæðinu í kjallaranum, niður í fjöruborðið. Það gerði hann á sérstakri bátakerru sem hann smíðaði einnig sjálfur.
Báturinn rann léttilega á flot við sjósetningu en Ketill réri honum yfir að Baðstofuhellinum í þessari jómfrúarferð. Þetta er fyrsti báturinn sem Ketill smíðar eftir eigin teikningu, en hann hefur áður smíðað báta eftir teikningum annarra. Hann kveðst nokkuð ánægður með smíðina en hyggst þó útfæra bátinn enn frekar og setja í hann utanborðsmótor og segl þannig að hann verði fjölnota.