19. mars. 2003 09:28
Krefjast þess að bensínflutningar verði bannaðir
Á síðasta fundi bæjarráðs Akraness var samþykkt tillaga um bann við bensínflutningum um Hvalfjarðargöng. Tillagan var svohljóðandi: „Bæjarráð hefur tvívegis ályktað um að banna beri flutning á bensíni, gasi og olíum um Hvalfjarðargöng. Nú hefur nefnd á vegum dómsmálaráðuneytis skilað áliti sinu um málið, en ekki hefur verið tekin ákvörðun um aðgerðir í málinu. Bæjarráð Akraness ítrekar fyrri ályktanir um að banna beri umræddan flutning og skorar á dómsmálaráðherra að grípa til nauðsynlegra ráðstafana þar að lútandi.“
Ingvi Hrafn Óskarsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra sagði í samtali við Skessuhorn að ráðherra hafi ákveðið að láta vinna að breytingum á reglum til að hrinda í framkvæmd tillögum nefndar sem fjallaði um flutning eldfimra efna um Hvalfjarðargöng. Í ákvörðun ráðherra felst að tillögum nefndarinnar verði fylgt að meginstefnu en þar var ekki gert ráð fyrir að bensínflutningar yrðu bannaðir heldur takmarkaðir. Ekki liggur fyrir hvenær þær takmarkanir taka gildi.