10. apríl. 2003 10:49
Umfangsmikil leit að ketti á Holtavörðuheiði eftir umferðaróhapp
Kattavinafélagið hefur óskað aðstoðar björgunarsveitarmanna í Borgarfirði við leit að ketti sem týndist eftir umferðaróhapp á Holtavörðuheiði á föstudag.
Um hádegisbil á föstudag valt bifreið á þjóðvegi 1 í Krókalækjum í sunnanverðri Holtavörðuheiði eftir að ökumaður missti stjórn á bílnum í lausamöl. Í bílnum voru kona og barn og voru þau flutt á sjúkrahús til rannsóknar, að sögn lögreglunnar í Borgarnesi, en meiðsli þeirra voru ekki talin alvarleg.
Í bifreiðinni var einnig köttur í burðarbúri og mun búrið hafa opnast þegar bifreiðin valt kötturinn sloppið út. Síðan hefur ekkert til hans spurst þrátt fyrir ítrekaða leit. Félagar í kattavinafélaginu fóru í Krókalæki á sunnudag og hefur félagið sett sig í samband við Björgunarsveitina Brák í Borgarnesi og Björgunarsveitina Heiðar í Borgarfirði og óskað aðstoðar. „Ástæðan fyrir því að við komum að þessu máli er sú að kisi fannst á götunni í Reykjavík fyrir mánuði og hefur verið hjá okkur síðan. Við vorum að leita að góðu heimili fyrir hann og fundum þessa stúlku sem ætlaði með hann norður í land en síðan gerðist þetta,“ segir Sigríður Heiðberg hjá Kattavinafélaginu. „Ég er búin að hringja út og suður, í fólk í Hrúafirði og Borgarfirði og fleiri sem ég veit að eiga leið þarna um. Ég er að hugsa um að fá fólk úr Reykjavík til að fara þarna um helgina og leita,“ segir Sigríður.
Sigríður biður alla sem leið eiga um Holtavörðuheiðina að hafa augun hjá sér og láta vita ef það verður vart við kisa. Hann er steingrár og hvítur og merktur í eyra með einkennisstöfunum 02G61. Þá er hann bæklaður á vinstra framfæti að sögn Sigríðar.