05. maí. 2003 03:56
Fullkomin aðstaða fyrir ferðamenn við Hraunfossa
Síðastliðinn þriðjudag voru formlega teknar í notkun endurbætur við áningarstaðinn Hraunfossa í Borgarfirði. Framkvæmdir hófust að tilstuðlan Ferðamálaráðs árið 1995 og var þá byggt nýtt bílastæði við þennan fjölsótta ferðamannastað. Fyrir um þremur árum var komið fyrir hreinlætisaðstöðu og byggður útsýnispallur við Hraunfossana. Í vor var síðan komið fyrir þjónustuhúsi þar sem verður greiðasala, minjagripir ofl. Einnig hafa verið gerðir göngustígar um svæðið, bílastæði afmörkuð og gerður útsýnispallur við Barnafoss. Framkvæmdirnar voru í höndum Ingólfs Jóhannssonar skrúgarðyrkjumeistara og Þorsteins Guðmundssonar vélaverktaka.
Markmiðið með framkvæmdunum við hraunfossa var fyrst og fremst að vernda umhverfið og auka öryggi ferðamanna.Við athöfn við Hraunfossa á þriðjudag kom fram að áníðsla landsins hafi verið það mikil að gróðureyðing á bökkum árinnar hafi verið kominn á hættustig. Á þriðjudaginn var einnig undirritað samkomulag milli Ferðamálaráðs og Borgarfjarðarsveitar þar sem sveitarfélagið tekur að sér allt viðhald á þeim mannvirkjum sem Ferðamálaráð hefur látið koma fyrir á svæðinu.