14. júní. 2003 09:10
Sparisjóðurinn kaupir Eðalfisk
Sparisjóður Mýrasýslu hefur keypt allt hlutafé í Eðalfiski hf í Borgarnesi af Svissneskum fjárfestum sem áttu tvo þriðju hluta og Íslensk Ameríska sem átti einn þriðja hlutafjár í fyrirtækinu.
Eðalfiskur hf. var stofnað árið 1987 og þar starfa í dag um tuttugu manns í vinnslustöðvum fyrirtækisins í Borgarnesi og Reykjavík. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á reyktum og gröfnum laxi og framleiðir einnig salöt. Afurðir fyrirtækisins eru meðal annars fluttar til Bandaríkjanna og Danmerkur.
Að sögn Kjartans Broddi Bragasonar hjá Sparisjóði Mýrasýslu eru kaupin meðal annars tilkomin vegna þess að sögusagnir hafi verið á kreiki um að Eðalfiskur væri á förum úr héraðinu. „Við vildum tryggja að fyrirtækið yrði hér áfram og sjáum þarna tækifæri til að efla enn frekar atvinnulíf á svæðinu. Við sjáum mikil tækifæri í þessu fyrirtæki, það framleiðir góðar vörur og hefur á að skipa hæfu fólki,“ segir Kjartan. Hann segir að á næstunni verði mótuð stefna fyrir fyrirtækið til frambúðar en aðspurður um hugsanlegar breytingar segir hann að slíkt verði uppi á teningnum verði það í þeim tilgangi að efla fyrirtækið á þessu svæði.