25. október. 2003 01:21
Ný og betri kennsluaðstaða á Hvanneyri
Föstudaginn 17.október var formlega tekin í notkun nýgerð aðstaða til kennslu í málmsuðutækni og búsmíði. Aðstaðan er einkum ætluð til kennslu fyrir nemendur Landbúnaðarháskólans og til námskeiðahalds. Uppbygging þessi er liður í samþættingu á þeirri aðstöðu sem Landbúnaðarháskólinn og Rannsóknastofnun landbúnaðarins hafa til ráðstöfunar.
Kennsluaðstaðan hefur um 40 ára skeið verið í „Gamla bútæknihúsinu“ og voru endurbætur orðnar mjög aðkallandi. Hin nýja aðstaða er mjög vel tækjum búin en smíði og uppsetning er útfærð og smíðuð af þeim Jóhannesi Ellertssyni, starfsmanni Landbúnaðarháskólans og Hauki Þórðarsyni, starfsmanni Bútæknideildar Rala. Fullkominn loftræstibúnaður er við suðuaðstöðuna sem er smíðaður af Vírneti h.f. í Borgarnesi.
Rétt er að vekja athygli á að fljótlega munu verða auglýst námskeið fyrir bændur og aðra áhugasama í málmsuðu og búsmíði.