03. september. 2003 09:42
Slátrað í Búðardal
„Við vinnum að því að það verði sauðfjárslátrun í Búðardal í haust,“ segir Haraldur Líndal sveitarstjóri Dalabyggðar. „Að öllum líkindum verður það Sláturhúsið í Búðardal, eigandi hússins sem sér um slátrunina en endanleg ákvörðun liggur ekki fyrir. Ef af þessu verður munum við gera samning við Kaupfélagið á Hvammstanga um að þeir takið það fé sem fer í útflutning og slátri því og geri upp við bændur sjálfir. Við gerum ráð fyrir sláturloforðum upp á um 30.000 dilka sem er svipað og í fyrra. Hinsvegar mun þá um 34 - 36% af því fara á Hvammstanga þannig að það má búast við að hér verði slátrað hátt í 20.000 fjár.“
Haraldur segir þetta ekki vera óskastöðu fyrir eigendur Sláturhússins. „Af mörgum slæmum kostum teljum við þennan hinsvegar vera þann besta. Við óttumst að bændur muni lenda í vandræðum með slátrun í haus. Í fyrra var slátrað um 100.000 fjár hjá okkur, í Borgarnesi og á Laxá og ég veit ekki hvort þau hús sem verða eftir hérna næst eru tilbúin að bæta þess á sig. Menn eru á því að það sé skynsamlegt að við slátrum.“