31. október. 2003 10:29
Körfuboltamaður kjálkabrotinn á dansleik
Töluverður erill var hjá lögreglu í Borgarnesi eftir dansleik á Hótel Borgarnesi á laugardagskvöld. Tvær líkamsárásir voru kærðar og lögregla þurfti í fleiri tilfellum að hafa afskipti af ölvuðu fólki.
Alvarlegasta atvikið varð utan við Hótelið að loknum dansleik en þá réðst hópur manna að Steven Howard, bandarískum leikmanni í körfuknattleiksliði Skallagríms. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er talið víst að í það minnsta fjórir menn hafi tekið þátt í árásinni og börðu þeir manninn í götuna og klikktu út með því að sparka í andlit hans þar sem hann lá. Afleiðingarnar urðu þær að Steven kjálkabrotnaði og var hann fluttur til Reykjavíkur með sjúkrabíl um nóttina.
Samkvæmt upplýsingum frá Körfuknattleiksdeild Skallagríms verður Steven frá keppni í mánuð vegna meiðslanna sem hann hlaut.