31. október. 2003 05:30
Niðurskurði í FVA mótmælt harðlega
Mikil mótmæli hafa verið höfð uppi vegna þeirra áforma sem birtast í fjárlagafrumvarpinu og gera ráð fyrir lækkun á rekstrargreiðslum til Fjölbrautaskóla Vesturlands. Skólanefnd hefur skrifað ráðherra bréf og sent þingmönnum kjördæmisins afrit. Skólameistari hefur einnig skrifað sömu aðilum bréf og talað við flesta þingmenn. Nú síðast gerði Bæjarráð Akraness harðorða bókun þar sem þeim áformum sem uppi eru varðandi fjárveitingar til Fjölbrautaskóla Vesturlands er mótmælt og menntamálaráðherra, fjárlaganefnd Alþingis og þingmönnum kjördæmisins er send áskorun þar sem þeir eru hvattir til að sjá til þess að málið verði leyst á þann hátt að úthluta skólanum þeim fjármunum sem þarf til að standa undir eðlilegri kennslu miðað við stærð skólans.
Að sögn Harðar Helgasonar skólameistara er gert ráð fyrir að rekstrartekjur Fjölbrautarskólans lækki um tæpar 16,5 mkr og munar um minna. Annars vegar er um að ræða niðurskurð sem allir framhaldskólar landsins verða fyrir og svo það sem mestur styr stendur um, að aðeins er gert ráð fyrir 510 heilsárs nemendum í fullu námi á næsta ári. Eftir uppgjör ársins 2002 voru ársnemendur 552 og margt bendir til að þeir verði ívið fleiri í ár. „Eins og þetta lítur út núna gerir frumvarpið ráð fyrir of fáum nemendum við alla framhaldsskóla landsins en af einhverjum ástæðum er áætlaður niðurskurður nemenda hlutfallslega mestur við Fjölbrautaskóla Vesturlands og Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra. Ég hef þá trú að þarna sé á ferðinni einhver vitleysa sem verður löguð áður en fjárlög verða afgreidd“
Magnús Stefánsson formaður fjárlaganefndar sagði í samtali við Skessuhorn að nú væri verið að fara yfir fjárlagafrumvarpið. „Málið er í vinnslu og það ætti að skýrast annað hvort í lok nóvember eða byrjun desember þegar fjárlög verða afgreidd hvernig þetta fer. Meira get ég ekki sagt á þessu stigi“ sagði Magnús að lokum.