20. ágúst. 2003 07:16
Skógi stolið á Mýrunum
Sífellt fleiri Íslendingar leggja stund á skógrækt og mörg dæmi eru um það að bújarðir hafi verið lagðar eingöngu undir trjárækt. Árangurinn fer vaxandi í orðsins fyllstu merkingu enda er skógræktarfólk að ná betri og betri tökum á ræktuninni eftir því sem safnast í reynslubankann.
Helstu vandamál sem skógræktarfólk hefur þurft að kljást við hafa hingað til verið veðurfarslegs eðlis. Hrönn Jónsdóttir, á Akranesi og maður hennar hafa um áratuga skeið stunda skógrækt í landi Arnarstapa á Mýrum og þau hafa nokkuð aðra sögu að segja því þar hafa bífræfnir plöntuþjófar látið greipar sópa. Þótt gripdeildir séu af ýmsum toga hér á landi sem annarsstaðar verður það að teljast nokkuð óvenjulegt að skógi sé stolið. „Við hjónin keyptum jarðarskika úr landi Arnarstapa á Mýrum fyrir 25 árum. Þar var áður ber melur en við höfum á þessum árum náð að koma upp nokkuð myndarlegum trjáreit og haft mikla ánægju af þessu áhugamáli okkar,“ segir Hrönn.
Trjálundur Hrannar og fjölskyldu er skammt frá Snæfellsnesvegi og segir hún að eftir að trén hafi verið komin vel upp úr jörðinni hafi hún tekið eftir því að fólk hafi verið farið að stoppa þar til að snæða nesti sitt og hvíla sig á akstrinum. „Okkur þótti bara vænt um að aðrir gætu notið þessa árangurs með okkur enda umgengnin í góðu lagi. Síðan gerist það í fyrra að 150 pottaplöntur sem við vorum búin að setja út voru hrofnar næst þegar við komum. Í sumar hefur þetta síðan haldið áfram og meðal annars meters hátt tré sem við höfðum fylgst með hafði verið tekið upp með rótum.“
Hrönn segir að það liggi svo sem ekki gríðarlegir fjármunir í skógræktinni en mikil vinna auk þess sem verkefni af þessu tagi hafi tilfinningalegt gildi fyrir þá sem að því standa. „Okkur finnst þetta nánast óskiljanlegt að einhver nenni að leggja sig niður við þetta. Við gætum lokað veginum heim að trjáreitnum en við höfum viljað leyfa öðrum að njóta hans með okkur þarna á staðnum. Það var hinsvegar aldrei meiningin að fólk ætti að taka hann með sér,“ segir Hrönn.