30. ágúst. 2003 09:05
Fyrsta landsliðstreyjan á íþróttasafnið
Sigurður Ólafsson fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður Vals afhenti Íþróttasafni Íslands fyrsta landsliðsbúning sem íslenska landsliðið í knattspyrnu keppti í, fyrir leik ÍA og Vals laugardaginn 23. ágúst sl. Sigurður spilaði í treyjunni í fyrsta opinbera landsleik í knattspyrnu sem háður var við Dani á Melavellinum þann 7. júlí 1946 og endaði með 0-3 sigri Dana. Afhendingin fór fram í Safnaskálanum að Görðum, Akranesi þar sem Íþróttasafn Íslands er til húsa. Gjöf þessi er einstök í sinni röð þar sem er ekki er vitað um að keppnistreyja frá fyrsta landsleik hafi varðveist og jafnframt er ekki vitað um að gamlar landsliðstreyjur eða búningar hafi varðveist hjá KSÍ eða einkaaðilum.