03. september. 2003 03:25
Hótelfjölskyldan stækkar
Hótelkeðja þeirra feðga, Óla Jóns Ólasonar í Reykholti og Óla Jón Ólasonar í Stykkishólmi hefur stækkað um einn hlekk en þeir hafa opnað fyrsta hótelið sem rekið er í Kópavogi, Hótel Smáralind sem stendur rétt ofan við verslunarkeðjuna Smáralind. Fyrir reka þeir Hótel Reykholt, Hótel Stykkishólm og Hótel Ólafsvík. Það er dóttir Óla Jóns í Reykholti og systir Óla Jóns í Stykkishólmi, Elín, sem sér um rekstur hótelsins í Kópavogi. Hótelið sem byggt var í sumar af Nýborg er með 25 herbergjum sem fjölgar í 42 í vor.
„Það var eiginlega þrýstingur frá erlendum viðskiptavinum sem varð til þess að við ákváðum að opna hótel á Höfuðborgarsvæðinu. Þeir vilja versla við einn aðila, senda inn eina pöntun og fá eitt svar. Þetta hentar þeim vel því þeir sem við erum mest að skipta við eru að koma með hópa í 4 -5 daga ferðir og vilja eyða helmingi tímans á höfuðborgarsvæðinu og hinum helmingnum á Vesturlandi,“ segir Óli Jón, yngri.