20. október. 2003 03:01
Foreldrar dreifbýlisbarna ósátt
Foreldrar barna úr dreifbýlishluta Borgarbyggðar sem sækja nám í Grunnskólann í Borgarnesi eru ósátt við það sem þeir vilja meina að sé skert þjónusta hjá skólaskjólinu.
Skólaskjól grunnskólans er rekið sem athvarf fyrir nemendur grunnskólans sem annað hvort þurfa að bíða eftir skólabíl til að komast heim eða þurfa að hafa skjól yfir höfuðuið þar til íþróttaæfingar hefjast eða einhverjir viðburðir í félagsstarfi. Einnig er það opið fyrir börn úr Borgarnesi sem þurfa gæslu þar til vinnudegi foreldranna líkur.
Að sögn Finnboga Leifssonar í Hítardal, sem á börn í Grunnskóla Borgarness, eru foreldrar ósáttir við breytingar á þjónustu skólaskjólsins. „Upphaflega var skólaskjólið stofnað sem athvarf fyrir dreifbýlisbörnin og áttu þau þar vísan samastað milli 8- 17.00 þegar þau þurftu á því að halda. Þessu hefur verið breytt á þann veg að skjólið opnar ekki fyrr en 13.00 og síðan er meiningarmunur á aðgangi að skjólinu eftir að skólabílar eru farnir. Foreldrar eru einnig ósáttir við að börnin geti ekki nýtt sér skjólið nema það sé tilkynnt með jafnvel nokkurra mánaða fyrirvara. Það er alls ekki hægt í öllum tilfellum. Við vitum ekki annað en að það fyrirkomulag sem var í fyrra hafi gengið ágætllega, þ.e. að börnin höfðu aðgang að skjólinu þegar á þurfti að halda og við teljum að það hafi verið óþarft að breyta því. Skólaskjólið átti að vera framlag sveitarfélagsins til að mæta þeim aðstöðumun að búa tugi kílómetra frá skólanum og kostnaður sveitarfélagsins vegna þessa er ekki verulegur. Miðað við núverandi fyrirkomulag er þessi þjónusta ekki í samræmi við þá hugsun sem liggur að baki,“ segir Finnbogi.
Því má bæta við að á þriðjudagskvöld stóð til að halda fund um málið í Lyngbrekku á vegum Fræðslunefndar Borgarbyggðar og voru foreldrar boðaðir á þann fund. Ekki höfðu borist fréttir af því áður en blaðið fór í prentun hvort málið væri til lykta leitt.