26. október. 2003 08:36
Steinharpa Páls til Ítalíu
Hið einstaka borgfirska hljóðfæri, steinharpa Páls Guðmundssonar listamanns í Húsafelli, er á förum til Ítalíu í lok ársins en hljómsveitin Sigurrós mun flytja tónverkið Hrafnagaldur í Bologna, Feneyjum og Napólí í desember. Steinharpan gegnir lykilhlutverki í Hrafnagaldri og sömuleiðis kvæðamaðurinn Steindór Andersen sem einnig verður með í för.
Í samtali við Skessuhorn kvaðst Páll hafa unnið að endurbótum á steinhörpunni að undanförnu og meðal annars notast hann við mjólkurbrúsa og mjaltafötur til að ná dýpri hljóm úr steinunum.