27. september. 2003 05:45
Slátrað þrátt fyrir allt
Allar líkur eru á að haustslátrun hefjist hjá Dalalambi hf, nýju sláturfélagi í eigu Dalabyggðar, á morgun, fimmtudag. Undirbúningur sláturtíðar hefur gengið hálf brösulega en um tíma komust eigendur sláturhússins ekki inn í húsið, samkvæmt heimildum Skessuhorns, þar sem forsvarsmenn Ferskra afurða, sem höfðu húsið á leigu höfðu skipt um skrár í húsinu.
Samkvæmt tilkynningu frá Sláturhúsinu í Búðardal sem á húsið og Ferskum afurðum hefur nú náðst samkomulag um leigulok varðandi húsnæðið. Í samkomulaginu felst að Ferskar afurðir munu hafa hluta vinnslurýmis á leigu áfram.
Reiknað er með að 15 - 20 þúsund lömbum verði slátrað á vegum Dalalambs í haust.