03. október. 2003 03:17
Þorskeldi við Hvalfjörð
Fyrirtækið Faxaeldi ehf. hefur áformað að hefja þorskeldi í sjókvíum í Hvalfirði. Fyrir-tækið er í eigu Haraldar Böðvarssonar hf. og Granda hf. og á hvort félag 50% hlut. Haraldur Böðvarsson hf. hefur sent sveitarfélögum við Hvalfjörð og öðrum hagsmunaaðilum s.s. Grundartangahöfn og Smábátafélagi Akraness bréf þar sem óskað er eftir upplýsingum um starfsemi sem nú er þegar í firðinum og hvort þessir aðilar hafi einhverjar athugasemdir við þorskeldisáformin. Bæjarráð Akraness hefur þegar fjallað um erindi Faxaeldis á fundi sínu og gerði engar athugasemdir við erindið. Á þessari stundu er verið að skoða hitastig og aðrar náttúrulegar sveiflur í Hvalfirði til að finna ákjósanlegan stað fyrir eldið. Þessi vinna er á algjöru frumstigi en á næstunni skýrist væntanlega hvort af eldinu verður.