06. október. 2003 07:23
Dregið úr byggingum á Miðbæjarreitnum
Skipulags- og umhverfisnefnd Akraness tók fyrir deiliskipulagsbreytingu á miðbæjarreit fyrir á síðasta fundi sínum. Þar kynnti Sveinn Knútsson sín sjónarmið og óskaði eftir að Skagaver yrði eðlilegur hluti að þeirri uppbyggingu sem þarna er fyrirhuguð. Á fundinum skýrði Þorvaldur Vestmann sviðstjóri tækni- og umhverfissviðs frá því að Línuhönnun mun gera úttekt á bílaumferð til og frá svæðinu og munu niðurstöður liggja fyrir 1. nóvember nk. Formaður nefndarinnar Magnús Guðmundsson lagði fram tillögu meirihlutans. Tillagan gerir ráð fyrir að draga úr byggingarmagni á svæðinu töluvert með því að fækka turnunum niður í tvo, fella niður hótel hugmyndir og auka á opna svæðið.
Minnihluti skipulags- og umhverfisnefndar óskaði eftir frestun á afgreiðslu tillögunar þar sem umferðarmat lá ekki fyrir en þeirri ósk var hafnað. Minnihlutinn skilaði þá sérbókun þar sem ítrekað er að byggingarnar verði að hámarki 5 hæðir.
Í samtali við Skessuhorn sagði Magnús Guðmundsson að hugmynd meirihlutans gengi fyrst og fremst út á að létta á reitnum með minni byggingarmassa en tillögur Skagatorgs ehf. gera ráð fyrir. „Við viljum m.a. skapa meiri möguleika til útiveru og draga úr umferðarálagi. Við teljum að með þessar breytingartillögu sköpum við betra samfélag sem komi öllum til góða þegar uppi er staðið.“ Magnús bendir einnig á að í samningnum milli Skagatorgs og bæjarins hafi ekki verið gert ráð fyrir hóteli og tillaga meirihlutans sé í samræmi við hann.
Þeir aðilar sem standa að Skagatorgi ehf. funduðu í dag um breytingatillöguna. „Við lítum á þetta sem innlegg í umræðuna og ætlum að skoða hvernig við getum komist á móts við þá. Meðan Norðurál hefur ekki tekin ákvörðun um stækkun þá höfum við svigrúm til að eyða meiri tíma í skipulagningu en við höfum það ennþá að markmiði að byrja í vor.“ Sagði Björn S. Lárusson verkefnisstjóri Skagatorgs ehf. í samtali við Skessuhorn.