30. september. 2003 12:37
Lifandi landbúnaður á Hvanneyri
Þær voru líflegar konurnar sem kynntu grasrótarsamtökin Lifandi landbúnað á Hvanneyri í síðustu viku. Það voru þær Anna Margrét Stefánsdóttir og Arnheiður Hjörleifsdóttir sem kynntu þessi samtök kvenna í íslenskri bændastétt. Konurnar ætla að kynna sér betur hvað neytendur vilja og koma á persónulegri tengslum við þá eða sjá um nokkurs konar almannatengls fyrir landbúnaðinn.
Gullið heima er fyrsta verkefni Lifandi landbúnaðar með slagorðið „Ég og þú - byggjum brú“. Stefnt að því að um Evrópusamstarfsverkefni verði að ræða sem miðar að því að efla konur í landbúnaði til að takast á við ákveðið upplýsingastarf. Gagnkvæm virðing ólíkra menningarheima og miðlun þekkingar er leiðarljós verkefnisins. Í verkefninu felst m.a. námsefnisgerð um sveitalíf fyrir leik- og grunnskóla, kynningarefni fyrir almenning, heimsóknir bænda í skóla, kynningar í verslunum og víðar meðal almennings ásamt fræðslu á vefsíðu. Undanfari þessa er námskeiðahald fyrir bændurna og aðra sem að þessu kynningarstarfi kunna að koma.
Lifandi landbúnaður hefur í samstarfi við Kvenfélagasamband Íslands unnið að því að 15. október verði helgaður konum í dreifbýli. Í tilefni þess verður blásið til hátíðarhalda á aðalmarkaðssvæðinu: Höfuðborginni - nánar tiltekið í Vetrargarðinum í Smáralind. Þar mun forseti Íslands, Herra Ólafur Ragnar Grímsson, opna formlega dagskrá og staðfesta með því Dag kvenna í dreifbýli.