19. október. 2003 02:18
Rjúpnaeftirlit úr lofti
Lögreglan í Borgarnesi mun fylgjast grannt með rjúpnaskyttum í haust ekki síður en undanfarin ár og reyndar enn frekar því rjúpnaveiði er sem kunnugt er bönnuð í ár. Að sögn Theodórs Þórðarsonar yfirlögregluþjóns í Borgarnesi er eftirlitið löngu hafið því í september var tilkynnt um rjúpnaskytterí í sumarbústaðahverfum á svæðinu. „Við sinnum þessu með svipuðum hætti og verið hefur og notum m.a. flugvélar í eftirlit. Það sem breytist er að við munum hafa samstarf við lögregluna á Snæfellsnesi og í Dölum enda eiga þessi lögreglulið að sinna samliggjandi hálendi. Þetta mun væntanlega gera það að verkum að eftirlitið verður skilvirkara,“ segir Theodór.