05. desember. 2003 01:28
Átta umsækjendur um stöðu skólameistara
Umsóknarfrestur um stöðu skólameistara fyrir framhaldsskóla Snæfellinga er runninn út. Átta umsækjendur voru um stöðuna sem veitt verður frá og með 1. janúar á næsta ári. Menntamálaráðherra skipar í stöðuna að fenginni umsögn skólanefndar sem reyndar hefur ekki enn verið skipuð. Skólanefnd má skipa þegar skólinn hefur formlega verið stofnaður og skv. túlkun menntamálaráðuneytis á ákvæði framhaldsskólalaga, verður skólinn stofnaður þegar samþykkt hafa verið fjárlög þar sem gert er ráð fyrir fjárframlagi til skólans.
Samþykktar fjárlaga ársins 2004 er að vænta ca. 5. til 10. desember n.k. og mun ráðherra skipa skólanefndina í kjölfarið. Þegar skólameistari hefur tekið til starfa munu hann og skólanefnd taka ákvörðun um ráðningu annarra starfsmanna s.s. aðstoðarskólameistara og kennara.
Umsækjendur um stöðu skólameistara Framhaldsskóla Snæfellinga í Grundarfirði eru eftirfarandi: Guðbjörg Aðalbergsdóttir, framhaldsskólakennari, Guðrún Alda Harðardóttir, lector, Hreinn Þorkelsson, framhaldsskólakennari, Ragnar Bjarnason, framhaldsskólakennari, Reynir Kristjánsson, framleiðslustjóri, Sigrún Kr. Magnúsdóttir, kennslustjóri, Sigurlín Sveinbjarnardóttir, aðstoðarskólastjóri og Steinar Almarsson, sjálfstætt starfandi.