10. júní. 2004 12:30
Garðasel er heilsuleikskóli
Á grillhátíð sem fram fór í hádeginu í dag var leikskólanum Garðaseli á Akranesi veitt viðurkenning frá Lýðheilsustöð og Landlæknisembættinu fyrir störf að bættu heilbrigði, íþróttum og hreifingu meðal barnanna. Það var Anna Björg Aradóttir frá Lýðheilsustöð sem veitti Ingunni Ríkharðsdóttur leikskólastjóra viðurkenninguna. Garðasel er þar með þriðji leiksólinn á landinu sem má skilgreina sig sem heilsuleikskóla. Áður hafa leikskólar í Grindavík og Kópavogi hlotið sambærilegar viðurkenningar.
Við þetta tækifæri sagðist Ingunn Ríkharðsdóttir vera í senn stolt og ánægð með þessa viðurkenningu. "Við höfum lagt mikla áherslu á hreifingu og íþróttaiðkun og höfum t.a.m. alla þessa viku verið með sérstaka íþróttaviku. Þessi viðurkenning undirstrikar áherslur okkar og ég er stolt fyrir okkar hönd og Akraneskaupstaðar sem vissulega er íþróttabær," sagði Ingunn í samtali við Skessuhorn.