20. júní. 2004 07:24
Óhapp í göngunum
Hollensk hjón á hringferð um landið lentu í óhappi í Hvalfjarðargöngunum sl. föstudag þegar bill þeirra lenti á vegg og hjólhýsi sem þau höfðu í eftirdragi lenti á hliðinni. Hjónin, sem voru ein í bílnum, mega teljast heppin að slasast ekki þar sem bíllinn var mjög illa farinn. Þau voru á suðurleið, komin niður undir Guðlaug neðst í Hvalfjarðargöngum þegar eitthvað fór úrskeiðis. Verksummerki bentu til þess að bíllinn hafi rásað nokkuð á akbrautinni áður en hann lenti á gangaveggnum og hjólhýsið valt. Bíllinn er talinn ónýtur og hjólhýsið er sömuleiðis illa farið. Þetta er eitt alvarlegasta óhappið sem orðið hefur í göngunum frá opnun þeirra árið 1998, en loka þurfti þeim fyrir umferð í nokkra klukkutíma meðan verið var að hreinsa til eftir óhappið.