22. júní. 2004 06:12
Gestastofa í Grundarfirði
Síðastliðinn miðvikudag var nýja Gestastofan í Sögumiðstöðinni í Grundarfirði opnuð. Þar er til húsa hátæknivædd upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn þar sem hægt er að ferðast um Snæfellsnes á snertiskjáum, eða á netinu, hvort heldur sem menn velja. Þar er auk þess netkaffihús, símasjálfsalar og minjagripasala.
Það var Ásthildur Sturludóttir ferðamálafulltrúi sem opnaði uppýsingaveituna en Ingi Hans Jónsson veitir henni forstöðu og er í forsvari fyrir þann vaska hóp manna sem staðið hefur að uppbyggingunni á húsnæði Eyrbyggju – Sögumiðstöð og innréttingum hennar. Meðal annars hefur húsið nú verið klætt að utan og byggt lítilsháttar við það. Fyrir í húsinu er Bæringsstofa sem rúmar nú um 40 manns þegar sýna þarf ljósmyndir eða kvikmyndir. Þar hefur verið uppi sýning á myndum og búnaði Bærings heitins Cecilssonar, sem opnuð var fyrir tæpu ári síðan.