23. júní. 2004 11:14
Hótel Stykkishólmur selt
Síðastliðinn föstudag var skrifað undir kaup feðganna Péturs Geirssonar og Jóns Péturssonar, sem eiga og reka Hótel Borgarnes, á öllum eignum Hótel Stykkishólms. Seljandi var Hótelfélagið Þór ehf. sem alfarið er í eigu Stykkishólmsbæjar. Kaupverð eignanna er 110 milljónir króna. Feðgarnir Pétur og Jón tóku strax frá undirskrift við rekstrinum og hafa ráðið Guðna Halldórsson viðskiptalögfræðing og matreiðslumeistara sem hótelstjóra.
Aðdragandi sölunnar var mjög skammur. Í síðustu viku gekk Hótelfélagið Þór frá samkomulagi við Óla Jón Ólason hótelstjóra, f.h. þeirra rekstraraðila sem undanfarin ár hafa leigt reksturinn, um að Hótelfélagið leysti þá undan leigusamningi um Hótel Stykkishólm. Í Stykkishólmspóstinum í síðustu viku er haft eftir Óla Jóni f.v. hótelstjóra að rekstur hótelsins hafi verið erfiður í vetur og margt brugðist sem treyst hafði verið á. Fyrir hönd Hótelfélagsins Þórs var það því nafni fyrrum hótelstjóra; Óli Jón Gunnarsson bæjarstjóri sem bar ábyrgð á rekstri hótelsins í nokkra daga eða þar til sl. föstudag þegar salan hafði farið fram til feðganna úr Borgarnesi. Með sölu Hótel Stykkishólms segja þeir Óli Jón Gunnarsson bæjarstjóri og Rúnar Gíslason oddviti meirihluta bæjarstjórnar Stykkishólms, að um tímamótasölu sé að ræða. “Með þessari sölu erum við formlega búnir að draga Stykkishólmsbæ út úr öllum þeim rekstri sem ekki tilheyri hefðbundnum rekstri sveitarfélaga,” sagði Rúnar Gíslason. Bæði Rúnar og Óli Jón Gunnarsson vildu óska Pétri og Jóni alls velfarnaðar með rekstur hótelsins og lýstu bjartsýni sinni og ánægju með að fá slíka “reynslubolta” til að taka yfir rekstur og eigur Hótel Stykkishólms sem er veigamikill þáttur í vaxandi ferðaþjónustu í Hólminum. Sjá nánar viðtal við Pétur Geirsson í Skessuhorni, sem kemur út á morgun, miðvikudag.