23. júní. 2004 09:20
Kynjareið Hvanneyringa
Miðvikudagskvöldið 16. júní fóru tæplega 20 hestamenn á Hvanneyri í fisléttan kynjareiðtúr um Andakílshrepp hinn forna. Eftir velheppnaðan reiðtúr var keppt í slysafolaldafitness. Þá þurftu menn á leysa hinar ýmsu þrautir berbakt á hestunum sínum, 2 pör kepptu í einu og þar mátti glöggt sjá að það er að týnast úr hestamennskunni að ríða berbakt. Sveinbjörn og Viddý í Hvannatúni urðu hlutskörpust og fóru brautina hnökralaust á 1:51 og verður að teljast nokkuð öruggt að þau eru Íslandsmeistarar í Slysafolaldafitness. Kvöldið endaði svo á pallinum hjá Ingimar og Guðrúnu þar sem snætt var slysafolaldakjöt en með viðeigandi meðlæti. Búið er að skipa í nefnd fyrir kynjareið 2005, en það urðu einmitt lögð drög að slysafolöldum á Hvanneyri við nemendahesthúsið eitt fagurt vorkvöld núna í júní.