09. september. 2004 12:05
Úrbóta þörf í neysluvatnsmálum
Undanfarna daga hefur á nokkrum bæjum í Reykholtsdal, og m.a. á Reykholtsstað, borið á neysluvatnsskorti. Ástæðan er bæði langvarandi þurrkar og í sumum tilfellum aukin notkun, segir Linda Björk Pálsdóttir, sveitarstjóri í Borgarfjarðarsveit. Af þeim sökum héldu ýmsir hagsmunaaðilar á svæðinu fund um vatnsmál í síðustu viku þar sem farið var yfir stöðu mála bæði hvað snertir neysluvatn og hitaveitumál.
Í samtali við Skessuhorn sagði Linda Björk að til lausnar neysluvatnsskorti sé einkum verið að skoða tvær leiðir. “Annarsvegar kemur til greina að nýta vatnsból í Hægindakotshálsi en hinsvegar að fara í stærri og mun kostnaðarsamari framkvæmd og sækja vatn í uppsprettu ofan við Rauðsgil. Starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur eru m.a. að skoða hagkvæmni þeirrar vatnsveitu og ég geri ráð fyrir að frumniðurstöður úr þeirri könnun liggi fyrir í þessum mánuði. Vatnsveita frá Rauðsgili er stærri framkvæmd og kostnaðarsamari en gæti nýst stærra svæði, eða Kleppjárnsreykjahverfinu og jafnvel lengra t.d. Bæjarhverfinu einnig,” sagði Linda Björk í samtali við Skessuhorn.