14. september. 2004 09:56
Skagamenn vilja að Sundabraut verði í forgang
Bæjarstjórn Akraness samþykkti á fundi sínum fyrr í dag ályktun þar sem tekið er undir nýlega ályktun samgöngunefndar Reykjavíkur um að lagning Sundabrautar sé ein allra mikilvægasta samgöngubót á höfuðborgarsvæðinu. Hún greiði verulega fyrir umferð frá Vestur- og Norðurlandi og hafa margþætt áhrif á þróun byggðar. Fram hefur komið að í viljayfirlýsingu sem Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður, Borgarbyggð og önnur sveitarfélög í Borgarfjarðarhéraði hafi undirritað um sameiningu Reykjavíkur-, Akranes-, Grundartanga- og Borgarneshafnar sé meðal annars lögð áhersla á að undirbúningi og framkvæmdum við Sundabraut verði hraðað. Bæjarstjórn Akraness skorar því á ríkisstjórn og Alþingi að undirbúningi að lagningu Sundabrautar verði hraðað og sem fyrst verði lögð fram tímasett áætlun verksins.