15. september. 2004 10:09
Kveikt í bílskúr og skemmdarverk unnin á bíl
Grunur er um íkveikju og skemmdarverk við íbúðarhúsið á bænum Brekku II í Hvalfirði sl. mánudagsmorgun. Húsið er lítið timburhús, byggt árið 1972 og stendur á steyptum sökkli og er bílskúr undir því. Einn maður var í húsinu þegar eldurinn kom upp og hringdi hann í Neyðarlínuna og leitaði jafnframt aðstoðar nágranna sinna á Bjarteyjarsandi við að hefta útbreyðslu eldsins. Lögreglan í Borgarnesi og Slökkvilið Akraness fóru á vettvang ásamt sjúkraflutningamönnum frá Akranesi. Maðurinn slapp ómeiddur, en skemmdir á húsinu urðu töluverðar bæði af völdum hita, reyks og vatns og sviðnaði t.d. framhlið þess mikið svo einungis var tímaspursmál að eldurinn læsti sig í húsið áður en slökkvistarf hófst.
Eldurinn kom upp í bílskúr á neðri hæð hússins og barst í pallbifreið sem brann til kaldra kola. “Við skúrinn stóð einnig fólksbifreið sem brann ekki, en á henni höfðu verið unnin töluverð skemmdarverk. Við rannsókn málsins urðum við einnig fljótt varir við að kveikt hafði verið í bílskúrnum,” sagði Theodór Þórðarson, yfirlögregluþjónn í Borgarnesi, en embætti hans fer með rannsókn málsins. Theodór segir að enginn hafi enn verið handtekinn vegna brunans og skemmdarverkanna. “Hér er um mjög bíræfið og alvarlegt brot að ræða einkanlega þar sem maður var staddur í húsinu þegar skemmdarverkin voru framin og kveikt var í húsinu,” sagði Theodór í samtali við Skessuhorn.