26. september. 2004 01:51
Leitað að köldu vatni í Grundarfirði
Ákveðið hefur verið að fara í rannsóknir á möguleikum til vatnsöflunar í Grundarfirði en búist er við að núverandi vatnsból anni ekki vatnsþörf Grundfirðinga um langa framtíð. Neysluvatn Grundarfjarðarbæjar er sem stendur tekið úr borholu við Grundarfoss og þarf að dæla því inn í bæinn. “Við erum að vonast til að geta fengið sjálfrennandi vatn úr hlíðinni ofan við bæinn og það verður kannað,” segir Gísli Ólafsson bæjarfulltrúi. “Aðalmálið er þó það að það þarf að auka við kaldavatnsframleiðsluna fyrir framtíðina. Við vonum að það verði ekki langt í að hitaveita verði að veruleika hér í Grundarfirði og reynslan sýnir að með hitaveitu eykst kaldavatnsnotkunin um tíu prósent. Við ráðum reyndar við það en ekki mikið meira.” Gísli segir enga ákvörðun hafa verið tekna um framkvæmdir en hinsvegar eru nokkrar framkvæmdir við vatnsveituna í gangi þessa dagana. Gísli segir að ákveðin tiltekt sé í gangi og verið að endurnýja spotta hér og þar.