28. september. 2004 10:54
Verður menningartengt hótel
Gengið hefur verið frá samningum um kaup Fosshótelkeðjunnar á Hótel Reykholti af Sverri Hermannssyni síðasta eiganda þess. Að sögn Renató Grunenfelder, framkvæmdastjóra Fosshótela, er stefnt á miklar endurbætur á húsnæði hótelsins í vetur sem snúast að aðallega um að koma baði á flest herbergi en meirihluti herbergja á hótelinu hefur fram til þessa verið án baðs. Hótelið verður opið nú í október fyrir hópa en verður lokað 1. nóvember þegar framkvæmdir hefjast.
Renató sagði í samtali við Skessuhorn að áherslum hótelsins verði breytt og þær færðar til samræmis við sérstöðu og sögu Reykholtsstaðar. “Þannig mun Hótel Reykholt verða skilgreint sem menningartengt hótel þar sem áhersla verður m.a. á sögu, goðafræði og klassíska list. Við gerum ráð fyrir að opna hótelið á ný eftir breytingarnar 1. mars á næsta ári,” sagði Renató. Hótelstjóri hefur verið ráðinn Einar Valur Þorvarðarson, en hann var sl. sumar hótelstjóri hjá Fosshótelum á Hallormsstað.