05. ágúst. 2004 10:47
Ístak hf. með lægsta tilboð
Síðastliðinn fimmtudag, 29. júlí, voru opnuð tilboð í byggingu nýs kerskála og aðrar byggingar vegna þriðja áfanga Norðuráls á Grundartanga, þ.e. stækkunar álversins úr 90.000 tonnum í 180.000 tonn. Útboðið tók til byggingar kerskála (um 31.000 m2), spennistöðva og aðstöðu fyrir loftpressur og blásara (samtals um 900 m2). Verkið felur í sér aðstöðusköpun á vinnusvæðinu, jarðvinnu, uppsteypu, forsteyptar einingar, stálvirki, klæðningar, veitukerfi og búnað, almennar lágspennulagnir og frágang innanhúss fyrir nýju byggingarnar. Alls bárust fjögur tilboð í verkið en þau voru frá Ístaki hf., ÞG verktökum ehf., Sveinbirni Sigurðssyni hf. og Íslenskum aðalverktökum hf. Samkvæmt þessum tilboðum er Ístak lægst, með 3,239 milljarða kr. í verkið en ÞG verktakar eru mjög nærri með 3,286 milljarða króna. Í fréttatilkynningu frá Norðuráli kemur fram að verið sé að fara yfir tilboðin.
Verkið er áfangaskipt og skal því að fullu lokið eigi síðar en 1. desember 2005.
Tilboðin voru sem hér segir:
Íslenskir aðalverktakar hf: 3.630.820.691 ISK
Sveinbjörn Sigurðsson hf: 3.484.111.290 ISK
ÞG verktakar ehf: 3.286.527.137 ISK
Ístak hf: 3.239.005.771 ISK
Kostnaðaráætlun verksins var 4.300.000.000 ISK