06. ágúst. 2004 02:56
Vörubifreið ónýt og grafa skemmd eftir eld
Slökkviliðið í Stykkishólmi var kallað út seinnipartinn í gær þegar kviknað hafði í vörubifreið skammt fyrir utan bæinn. Grafa var á palli bílsins þegar eldurinn kom upp. Tveir menn voru í bílnum og tókst þeim að forða sér frá eldinum sem breiddist hratt út, en stýrishús bílsins varð fljótt alelda. Bifreiðin er talin ónýt og grafan er einnig mjög illa farin ef ekki ónýt. Tækin voru frá Borgarverki í Borgarnesi.