25. ágúst. 2004 12:56
AÐGÁT: Það eru börn í umferðinni
Þegar skóli hefst á haustin eru yngstu nemendurnir oft að stíga sín fyrstu skref út í umferðina. Viðar Einarsson hjá lögreglunni á Akranesi segir embættið hafa ákveðinn viðbúnað í upphafi skóla á meðan þessir ungu vegfarendur eru að átta sig á aðstæðum. Umfang umfeðareftirlits sé meira og gæslan öflugri en endranær, sérstaklega í grennd við skólana. „Þegar skólastarfið er komið aðeins á veg fer lögreglan svo inn í grunnskólana með umferðarfræðslu fyrir börn í yngri bekkjunum, en þau Jóhanna Gestsdóttir og Jónas H. Ottósson hafa haft umsjón með henni. Þau heimsækja krakkana í skólann og leggja fyrir þau ýmis umferðartengd verkefni. Eldri nemendur fá einnig umferðarfræðslu í einhverjum mæli, en hún er samtvinnuð svokölluðu ÞOR verkefni sem lögreglan vinnur með unglingunum í samvinnu við skólana.“ Viðar segir lögregluna hvetja fólk til þess að fara varlega og sýna hinum ungu námsmönnum - sem og öðrum - tillitsemi í umferðinni.